Þátttakendur

Árni Daníel Júlíusson er sérfræðingur við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Rannsóknir Árna Daníels hafa einkum beinst að bændasamfélagi síðmiðalda á Íslandi í samanburði við bændasamfélög annars staðar í Norðvestur-Evrópu. Meðal rannsóknarefna Árna Daníels eru saga afkomu íslenskrar alþýðu og höfðingja frá landnámi til nútíma, umhverfissaga landsins og saga samfélagsátaka. Meðal rita Árna eru Íslenskur söguatlas I–III (1989-1993), Landbúnaðarsaga Íslands I–II (2013), Miðaldir í skuggsjá Svarfaðardals (2016), Jarðeignir kirkjunnar og tekjur af þeim 1000–1550 (2014) og Af hverju strái. Byggð, gras og bændur 1300­–1700 (2018).

Í rannsóknarverkefninu fæst Árni Daníel við verkþátt 2, Höfuðból og útjarðir sem félagslegar stofnanir þar sem hann kannar höfuðból og stöðu þeirra í landbúnaðarsamfélaginu um 1700.


Björgvin Sigurðsson er hugbúnaðarsérfræðingur hjá TM Software í Reykjavík. Hann er menntaður tölvunarfræðingur og er með BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hann var áður yfirmaður upplýsingatæknideildar Hagstofu Íslands og ráðgjafi FAO hjá Sameinuðu þjóðunum.

Björgvin er ábyrgur fyrir verkþætti 5, Smíði sagnfræðilegs upplýsingakerfis, og annast hönnun og skipulagningu gagnagrunnsins.

 


Guðmundur Jónsson er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og verkefnisstjóri þessa rannsóknarverkefnis. Rannsóknir Guðmundar hafa m.a. snúist um hagþróun og hagvöxt, landbúnaðarsögu, utanríkisverslun og sögulegar hagtölur. Meðal rita Guðmundar eru „Institutional Change in Icelandic Agriculture, 1780–1940“, SEHR, Vol. XLI:2 (1993); „Changes in Food Consumption in Iceland ca. 1770–1940“, SEHR, Vol XLVI:1 (1998); (meðritstjóri) Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland (1997); „The Gross Domestic Product of Iceland, 1870–1945“, Nordiske Historiske Nasjonalregnskaper (1999); „The Transformation of the Icelandic Economy, Exploring Economic Growth (2004); “The Impossible Dream: “Transferring the Danish Agricultural Model to Iceland”, Alan S. Milward and a Century of Change (2012).

Auk þess að stýra verkefninu er Guðmundur ábyrgur fyrir verkþætti 1, Jarðeigendur og leiguliðar, og vinnur Óskar Guðlaugsson að því efni með honum.


Ingibjörg  Jónsdóttir er dósent í landfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar hafa einkum snúist um umhverfisbreytingar og áhrif þeirra á íslenskt samfélag fyrr og nú, með sérstaka áherslu á hafís og náttúruvá. Ingibjörg hefur mikla reynslu af nýtingu landupplýsingakerfa og fjarkönnunar í verkefnum sínum og hefur kennt þessar greinar um árabil.

Í verkefninu hefur Ingibjörg, ásamt Óskari, umsjón með verkþætti 6, Landfræðileg greining jarða, þar sem staðsetning og dreifing þeirra er skoðuð út frá ýmsum náttúrufræðilegum og samfélagslegum breytum. Ingibjörg kemur að flestum öðrum verkþátum rannsóknarinnar.

 

Ólöf Garðarsdóttir er prófessor í félagssögu við Háskóla Íslands. Hún hefur fengist við rannsóknir á sviði lýðfræði, fjölskyldusögu, sögu bernsku og sögu fræðslumála á Íslandi. Meðal útgefinna rita Ólafar er bókin Manntalið 1703 þrjú hundruð ára sem hún ritstýrði ásamt Eiríki G. Guðmundssyni en í það rit skrifaði hún tvær greinar, aðra um „Þurfamenn í manntalinu 1703“ ásamt Lofti Guttormssyni og hina um lýðfræðileg sérkenni manntalsins 1703 með Eiríki G. Guðmundssyni. Af öðrum greinum Ólafar um manntöl fyrri tíma er greinin „The North Atlantic Population Project: An Overview“, Historical Methods  (2003); „Residence patterns of the elderly in early eighteenth century Iceland“, History of the Family (2016); og „Historical demography in Iceland 1970−2011“, A Global History of Historical Demography (2017)Af greinum Ólafar um lýðfræði 18. og 19. aldar má nefna „Infant mortality in the Nordic Countries 1780–1930“ Continuity and Change (2008) ( ásamt Sören Edvinsson og Gunnari Thorvaldssen);  og „Persisting structures? Infant mortality decline and changes in infant feeding practices in Iceland 1850−1920“, Food, Population and Health – Global Patterns and Challenges (2016).

Ólöf er ábyrg fyrir verkþætti 4, Áhrif félags- og efnahagslegra aðstæðna og umhverfis á fjölskyldur og heimili.  Þar er sjónum beint að fjölskyldu- og heimilisgerð við upphaf 18. aldar svo og tilfærslu fólks milli æviskeiða og fátækraframfærslu eins og hún birtist í manntalinu 1703.

Óskar Guðlaugsson er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands og vinnur undir leiðsögn Guðmundar Jónssonar. Óskar er með meistaragráðu í landfræði frá Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hans er félags- og hagsaga Íslands á 18. og 19. öld og hefur hann beitt stafrænum og landfræðilegum aðferðum talsvert í sögulegum viðfangsefnum. Meistararitgerð hans nefnist Í kvaðar nafni (2017) og fjallar um kvaðir á leiguliðum í bændasamfélaginu eins og þær koma fyrir í jarðabók Árna og Páls 1702-1714. B.Sc. ritgerð í landfræðinámi, Makaval og heimabyggð (2013) er um félagsleg tengsl byggða í ljósi skráðrar fæðingarsóknar hjóna í manntalinu 1845.

Óskar vinnur ásamt Guðmundi Jónssyni að verkþætti 1, Jarðeigendur og leiguliðar,  og verkþætti 3, Framleiðsla, tekjur og útgjöld heimilanna. Þá tekur Óskar þátt í Smíði sagnfræðilegs landupplýsingakerfis (vekþáttur 5) og Lanfdræðilegri greiningu  jarða (verkþáttur 6).

 

Sigríður Hjördís Jörundsdóttir er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla íslands undir leiðsögn Ólafar Garðarsdóttur. Hún lauk BA-gráðu og MA-gráðu í sagnfræði auk diplómu í grunn- og framhaldsskólanema frá Háskóla Íslands. BA-ritgerð Sigríðar Hjördísar fjallaði um íslenska sakamenn sem tóku út refsingu í Kaupmannahöfn 1736-1830. MA-ritgerð hennar fjallaði um sakamenn, sýslumenn og dómaframkvæmd á árunum 1755-1759. Sigríður Hjördís hefur unnið á skjalasöfnum, fyrst á Borgarskjalasafni Reykjavíkur og síðar á Handritadeild Landsbókasafns Íslands. Sigríður Hjördís hefur komið að uppsetningu margra sýninga um sögulegt efni.

Sigríður vinnur við verkþáttinn Áhrif félags- og efnahagslegra aðstæðna og umhverfis á fjölskyldur og heimili ásamt Ólöfu Garðarsdóttur. Þar fæst hún m.a. við athugun á framfærslukerfinu og félagslega viðkvæmum hópum.