Markmið og umfang

Þekking á fjölskyldum, heimilum og jörðum er lykilatriði til skilnings á samfélaginu á öllum tímum, hvort heldur við skoðum fólksfjöldabreytingar, efnahag eða félagsleg tengsl. Fyrir daga iðnvæðingar var heimilið grunneining bændasamfélagsins þar sem ein eða fleiri fjölskyldur sáu sér farborða með því að nýta sér þær bjargir sem jörðin hafði upp að bjóða. Flestir landsmenn höfðu landbúnað að aðalatvinnu og mótaði hann lífshætti þeirra, stofnanir og félagsleg samskipti.

Rannsóknir á landbúnaðarsamfélagi árnýaldar hafa einkum beinst að eignarhaldi á jörðum en þekking okkar á búskaparháttum, leiguábúð í framkvæmd og fjölskylduháttum hefur verið takmörkuð. Samspil þessara þátta við landshætti og umhverfi hefur heldur ekki verið mikið kannað. Rannsókninni er ætlað að auka skilning okkar á þessum grunnstofnunum samfélagsins, fjölskyldunni, heimilinu og jörðinni, og félagslegu og efnahagslegu umhverfi þeirra við upphaf 18. aldar. Við könnum gerð og starfsemi fjölskyldna, búskap heimilanna og samskipti leiguliða og jarðeigenda. Við leitumst einnig við að kanna viðbrögð fjölskyldna við langvarandi harðindum um aldamótin 1700.

Tíminn í upphafi 18. aldar er valinn til skoðunar vegna þess að til eru einstæðar heimildir frá þessum tíma, einkum manntalið 1703, kvikfjártalið 1703 og jarðabókin 1702-1714, sem veita okkur glögga innsýn í samfélagið, félagstengsl og búskaparhætti þess. Heimildirnar hafa einnig að geyma mikinn fróðleik um samfélag sem er undir gífurlegu álagi vegna harðinda og stóraukinnar fátæktar.

Við leggjum áherslu á samspil félagsgerðar, lífsháttta og umhverfis. Í því skyni er notuð tækni landupplýsingakerfa (e. Geographical Information System, GIS) sem auðveldar greiningu á gögnum frá landfræðilegu sjónarhorni. Búinn er til gagnagrunnur á landsvísu sem hefur að geyma gögn úr manntalinu, kvikfjártalinu og jarðabókinni. Gagnagrunnurinn er sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi og gefur hann færi á að rannsaka efniviðinn allt frá einstökum heimilum og jörðum, til hreppa, sýslna og landsins alls. Auk gagnagrunnsins er fyrirhugað að setja upp leitarbæran vef, sem er opinn öllum, með upplýsingum um jarðir og heimili í landinu.