Heimildir

Aðalheimildir verkefnisins eru sóttar í eina viðamestu rannsókn á högum Íslendinga sem gerð hefur verið. Árið 1702 voru Árni Magnússon prófessor í Kaupmannahöfn og Páll Vídalín varalögmaður skipaðir af Friðrik IV. Danakonungi til að kanna ítarlega ástandið á Íslandi í kjölfar langvarandi harðinda um og eftir aldamótin 1700. Jafnframt var þeim falið að leggja fram tillögur til umbóta á mörgum sviðum. Jarðabókarnefndin safnaði gífurlega miklum upplýsingum um íbúana, búskaparhætti og lífskjör. Umfangsmesta verkefni hennar var samning jarðabókarinnar á árunum 1702–1714 en auk þess lét nefndin gera manntal og kvikfjártal árið 1703.

Þessar heimildir veita einstaka innsýn í íslenska sveitasamfélagið fyrr á öldum og eiga vart sinn líka í öðrum löndum frá þessum tíma. Manntalið 1703 hefur verið tekið á skrá UNESCO yfir Minni heimsins (Memory of the World Register).

Manntalið 1703
Manntalið er elsta varðveitta þjóðarmanntal í heiminum sem hefur að geyma nöfn allra íbúanna. Undirbúningur að því hófst í október 1702 þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín sendu bréf til allra sýslumanna landsins þar sem þeim var boðið að hafa umsjón með framkvæmd manntals í sýslum sínum.Fyrsta manntalið var tekið í desember 1702 og það síðasta í júní 1703. Sýslumenn skiluðu manntalsgögnum úr öllum sýslum og hreppum landsins af sér á Alþingi í júlí 1703. Hafði þá verið tekin saman fyrsta heildstæða skráningin á íslensku þjóðinni og reyndust landsmenn vera rúm 50.000. Framkvæmd manntalsins tókst vel í öllum aðalatriðum þótt fundist hafi nokkrar misfellur í skráningu einstaklinga og býla og að skráningin hafi ekki verið að fullu samræmd enda var ekki notast við stöðluð skráningarblöð. Manntalsgögnin eru varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands og hefur manntalið verið gefið út heild og tölfræðileg geining gerð á því.

Í manntalinu eru skráð nöfn íbúanna, aldur kyn, heimilisstaða og búseta, auk margvíslegra upplýsinga um atvinnu, störf, heilsufar o.fl. Manntalið veitir því fjölbreytilegar upplýsingar, m.a. um aldursamsetningu þjóðarinnar og kynjahlutföll, byggðamynstur, stærð og sametningu fjölskyldna og heimila, stéttir og atvinnuvegi.

Kvikfjártalið 1703
Kvikfjártalið er minna þekkt en manntalið og jarðabókin vegna þess að það hefur ekki verið gefið út og lítið verið notað til rannsókna. Það er því miður óheilt því skýrslur vantar úr u.þ.b. 40% hreppa jafnvel vantar skýrslur úr heilum sýslum, þ.e. Hnappadalssýslu, Vestur-Ísafjarðarsýslu og Eyjafjarðarsýslu.. Kvikfjártalið er varðveitt á Þjóðskjalasafni Íslands og þar er nú unnið að útgáfu þess.

Kvikfjártalið var tekið í flestum hreppum frá miðjum maí og fram í miðjan júní 1703. Í því átti að geta bústofns á hverju býli og eigenda hans, en mjög var misjafnt hve nákvæm skráningin var. Í sumum hreppum er aðeins getið tegunda og fjölda búfjár en í öðrum var aldur og ásigkomulag kvifénaðar og jafnvel skuldir búfjáreigenda tilgreindar.

 

Jarðabókin 1702-1714
Stærsta verkefni Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var að semja jarðbók fyrir allt landið með ítarlegri lýsingu á hverri bújörð. Í jarðabókina skyldi skrá nafn jarðar og ábúanda hennar, verðmæti, leigugjald, leigukúgildi og kvaðir þær sem á jörðinni hvíldu. Tilgreina skyldi bústofn bænda og hvað jörðin gæti borið mikið. Við hverja jörð átti að tilgreina fjölda húsmanna og hjáleigubænda á jörðinni, landskuld þeirra og aðrar álögur. Einnig átti að skrá eyðijarðir og orsakir þess að þær höfðu farið í eyði. Í jarðalýsingum í sumum sýslum er einnig getið um fjölda heimilisfólks, tilhögun fátækraframfærslu og ásigkomulag jarða. Jarðabókin er því ekki fasteignaskrá eins og eldri jarðabækur heldur nákvæm jarðalýsing.

Vinna við jarðabókina hófst árið 1702 en það dróst alveg til 1714 að ljúka henni af ýmsum ástæðum, m.a. ófærðar á vetrum og lélegra samgangna. Jarðabókin var flutt til Kaupmannahafnar til varðveislu en jarðalýsingar Múla- og Skaftafellssýslna eru taldar hafa eyðilagst í brunanum í Kaupmannahöfn 1728. Jarðabókin var gefin út í 11 bindum á árunum 1913–1943.