Í verkefninu er félagsleg og efnahagsleg uppbygging samfélagsins í upphafi 18. aldar skoðuð. Grunneining rannsóknarinnar er bændaheimilið og er sjónum beint að þrem meginefnum. Í fyrsta lagi er kannað eignarhald á jörðum og samband landsdrottna og leiguliða. Greind er staða jarðeigenda, sjálfseignarbænda og leiguliða, einkenni leiguliðabúskapar á Íslandi og áhrif hans á lífskjör. Í öðru lagi er farið í saumana á sjálfum heimilisbúskapnum, afkomu heimilanna, tekjum og gjöldum, framleiðslu og neyslu heimilisfólks. Í þriðja lagi eru athuguð lýðfræðileg einkenni heimila og fjölskyldna. Könnuð er stærð og gerð heimila, og hvernig þau mótuðust af efnahagslegum og landfræðilegum aðstæðum.
Rannsókninni er skipt í sex verkþætti:
1. Jarðeigendur og leiguliðar
Í þessum hluta rannsóknar er kannað eignarhald á jörðum og jarðeignaskipan, tegundir jarða eftir eigendum og hvert tekjur af jörðum runnu. Efnahagsleg og félagsleg samskipti jarðeigenda og leiguliða eru skoðuð og hvaða álögur voru lagðar á leiguliða s.s. landskuld, búfjárleiga og kvaðir. Spurt er: Hver voru helstu form jarðeigna? Hvernig skiptust jarðeignir um 1700 og hver var munur milli héraða og landshluta? Hvað skýrir þennan mun? Voru álögur á leiguliða mismunandi eftir eigendum jarða?
Rannsóknarteymi: Guðmundur Jónsson, Ingibjörg Jónsdóttir og Óskar Guðlaugsson
2. Höfuðból og útjarðir sem félagslegar stofnanir
Rannsóknin leitast við að svara því hvernig aðgangi að landi er stýrt með ákveðnu jarðeignaskipulagi sem mótað var af löggjöf og venjum. Athyglinni er einkum beint að höfuðbólum og útjörðum, útbreiðsla þeirra könnuð svo og þýðing í þjóðarbúskapnum. Að hvaða marki réðu höfuðból yfir búfé og landgæðum utan jarðarinnar s.s. túnum, engjum og bithögum, rekavið og fiskveiðum? Höfðu höfuðból einkenni þéttbýlisbyggðar? Voru þau í einhverjum tilfellum vísar að þorpum? Eiga þau sér samsvörun annars staðar á Norðurlöndum?
Rannsóknarteymi: Árni Daníel Júlíusson og Ingibjörg Jónsdóttir
3. Framleiðsla, tekjur og útgjöld heimilanna
Markmið þessa verkþáttar er að greina og meta til fjár lífsbjörg heimilanna og síðan hvernig henni var ráðstafað. Gerðir eru búreikningar yfir rekstur valinna jarða sem sýna tekjur, útgjöld og afkomu þeirra. Tekjur eru áætlaðar út frá dýrleika (verðmæti) jarða, landkostum, búfé, fiskveiðum og fjölda vinnufærra manna. Útgjöld eru áætluð á grundvelli neyslu heimilismanna, álagna landeigenda og skatta. Meginspurningar: Getum við áætlað verðmæti helstu tekjustofna bændaheimilisins? Voru tekjur háðar eignarhaldi og staðsetningu jarðar? Hverjar voru helstu tekjur landeigandans af leiguábúðinni í formi landskuldar, búfjárleigna, kvaða og annarra álagna?
Rannsóknarteymi: Guðmundur Jónsson og Óskar Guðlaugsson
4. Áhrif félags- og efnahagslegra aðstæðna og umhverfis á fjölskyldur og heimili
Í þessum rannsóknarþætti er fjallað um fjölskyldugerð og samspil hennar við félagslegt og efnahagslegt umhverfi. Kannaður er svæðisbundinn breytileiki í stærð og gerð fjölskyldna og heimila, fjöldi fólks á vinnualdri og fjöldi framfærðra. Fjölskyldugerð og efnahagur nokkurra heimila er sérstaklega skoðaður. Meginspurningar: Hver var munur á stærð og gerð heimla milli svæða og landshluta og hvað skýrir þennan mun? Hvaða áhrif hafði efnahagur á lýðfræðilega þætti fjölskyldna? Var munur á sveitabyggðum og þétttbýlli sjávarbyggðum? Í rannsókninni er lagt mat á hvort munur var lífsferli einstaklinga eftir efnahag og landfræðilegri staðsetningu.
Rannsóknarteymi: Ólöf Garðarsdóttir, Sigríður Hjördís Jörundsdóttir og Ingibjörg Jónsdóttir
5. Smíði sagnfræðilegs landupplýsingakerfis
Verkefnið er að smíða gagnagrunn sem hefur að geyma fjölþætt hagræn, lýðfræðileg og landfræðileg gögn er tengjast fjölskyldum, heimilum og jörðum. Hagrænu gögnin eru aðallega fengin úr jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1702-1714 og kvikfjártali frá 1703. Hér má nefna nöfn jarða og staðsetningu, eyðibýli, dýrleika jarða, eignarhald, landskuld, búfjárleigu, kvaðir og fjölda og samsetningu búfjár. Lýðfræðilegu gögnin eru sótt í manntalið 1703 og tilgreina nafn, kyn, aldur, heimilisstöðu og starf. Til landfræðilegra gagna teljast landslagsupplýsingar, staðsetning jarða, sóknarmörk, hreppamörk og sýslumörk.
Rannsóknarteymi: Björgvin Sigurðsson og Óskar Guðlaugsson
6. Landfræðileg greining á jörðum
Áhrif landfræðilegra og menningarlegra þátta á jarðeignir eru könnuð í þessum verkþætti. Sjónum er beint að eftirtöldum atriðum: a) Staðsetningu jarða og landsháttum, hæð og fjarlægð frá sjó, staðháttum, landkostum. Er hægt að merkja eitthvert mynstur í innviðum og landnotkun og tengja það við landshætti? Hvert er samhengið milli eiginda jarðarinnar og landshátta? Hvað réð staðsetningu bæja og þéttleika byggðar og hvað segir það um landnytjar? b) Tengsl jarða við miðstöðvar menningar og samgönguleiðir. Hér kemur til skoðunar þéttleiki byggðar, fjarlægð frá miðstöðvum og samgönguleiðum og tengsl við sjávarbyggðir.
Rannsóknarteymi: Ingibjörg Jónsdóttir og Óskar Guðlaugsson